upphafið

Styrktarklúbburinn opnaði fyrst 30.ágúst 2015 og átti að verða samfélagsmiðill fyrir fólk sem fannst gaman að lyfta þungum hlutum og borða hollt. Það mistókst algjörlega. Fólk notar bara Facebook til að ræða svona hluti og því breyttist hlutverk Styrktarklúbbsins.

Vefsíðan varð að þjálfunarsíðu Skúla Pálmasonar, einkaþjálfara í Reebok Fitness Holtagörðum.

sterkar stelpur þjálfunin fæðist

Þetta sama haust fer Skúli að þjálfa stelpur í litlum hópum undir heitinu STERKAR STELPUR. Þjálfunin byrjaði smátt, með einum og svo tveimur hópum af stelpum sem vildu læra að gera æfingarnar rétt, styrkjast og líta betur út. Smám saman varð eftirspurnin meiri og Skúli hætti alfarið að þjálfa annað en STERKAR STELPUR hópeinkaþjálfunina um áramótin 2015. Hópeinkaþjálfunin fór svo í frí 2017.

sterkar stelpur áskorunin

Í lok mars 2016 ákveður Skúli svo að gefa aðeins af sér til að þakka fyrir viðtökurnar í hópeinkaþjálfuninni. Hann gefur öllum þeim konum sem vilja 3 mánaða þjálfunarprógramm undir heitinu STERKAR STELPUR ÁSKORUNIN. Viðtökurnar voru vægast sagt frábærar en um 3700 konur ákváðu að skrá sig til leiks. Fréttamiðlar fjölluðu um áskorunina og fjölluðu meðal annars DVMBL og Pressan um málið. Jóhanna Njálsdóttir sigraði fyrstu STERKAR STELPUR ÁSKORUNINA með yfirburðum. Næsta áskorun hófst svo í September 2016 og sigraði Margrét Ásgerður þá áskorun. Síðasta áskorunin var vorið 2021 og urðu þær alls 10 talsins.

Sterkar stelpur á netinu

en hver er skúli?

Skúli er Grindvíkingur, heimshornaflakkari, smá tölvunörd og einkaþjálfari með sjúkraþjálfunarmenntun.

Eftir að hafa skoðað heiminn eftir menntaskóla byrjaði Skúli í heilbrigðisverkfræði í HR árið 2008 en fann sig enganveginn þar. Hann hætti áður en fyrstu önninni var lokið og skráði sig strax í íþróttaakademíu Keilis og byrjaði í ÍAK einkaraþjálfaranáminu strax í janúar 2009. Hann fann sig mjög vel í því námi og ákvað að hann þyrfti að læra enn meira um mannslíkamann. Næsta skref var sjúkraþjálfun. Strax um vorið ákvað hann að prófa inntökuprófið til að sjá hverju hann ætti von á árið eftir. Hann var við það að gefast upp í prófinu en komst inn í námið. Eitthvað sem hann hafði ekki planað og búið sig undir.

Í stað þess að bíða í ár með að byrja í sjúkraþjálfun ákvað hann að taka þetta bara bæði á sama tíma; klára seinni önnina í ÍAK og byrja fyrstu önnina í sjúkraþjálfun. Þetta var strembið en Skúli komst í gegnum ÍAK einkaþjálfarann og hin þrjú árin í sjúkraþjálfaranum.

Á meðan náminu stóð þjálfaði Skúli alltaf eitthvað með skólanum; í Sporthúsinu, World Class og svo í stuttan tíma í eigin aðstöðu ásamt 4 félögum sem fór svo hrikalega á hausinn. Hann starfaði einnig sem sumarstarfsmaður á Grensás sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara í tvö sumur. Skúli stundaði verknám á Reykjalundi,, Hrafnistu, Bata sjúkraþjálfunarstofu og hjarta- og lungnadeild Landspítalanum.

Skúli útskrifaðist með B.Sc. gráðu í sjúkraþjálfun vorið 2013 og fer þá í annað langt ferðalag um Asíu. Algjörlega peningalaus kemur hann heim, flytur heim til mömmu og pabba og vinnur í löndun og fiskvinnslu í nokkra mánuði. 

Eftir að hafa komið undir sig fótunum kemst hann inn sem þjálfari hjá Reebok Fitness í byrjun árs 2014. Fyrir utan 2 löng ferðalög þjálfaði Skúli í fullu starfi í Reebok Fitness til 2021. Lengst af í Holtagörðum en sumarið 2018 flutti hann í göngufjarlægð frá sundlaug Kópavogs og byrjaði að þjálfa þar. Sjúkraþjálfunarbakgrunnurinn hjálpaði gríðarlega í þjálfuninni og var sérsvið Skúla í einkaþjálfuninni einstaklingar með einhverskonar stoðkerfisvandamál.

Skúli er mjög duglegur að lesa um allt sem tengist þjálfun og næringu og tók tvö heljarinnar námskeið 2016; CPPS réttindi og Precision Nutrition næringarþjálfunarnámskeið sem hann nýtir í að bjóða upp á 12 mánaða næringarþjálfun í takmörkuðum hópum. 

Á vormánuðum 2018 kláraði Skúli svo CPPC, þjálfunarréttindi fyrir konur á meðgöngu og eftir barnsburð ásamt því að klára Level II næringarþjálfun hjá Precision Nutrition, sem var 12 mánaða stíft prógramm. Hann tók einnig námskeið í áhugahvetjandi samtali.

Eftir að hann eignaðist son sinn, hann Óðinn í September 2017 sinnti Skúli netþjálfun ásamt einkaþjálfun í sundlaug Kópavogs þangað til hann flutti til Grindavíkur og svo tímabundið til Svíþjóðar með fjölskylduna þar sem hann nam viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Á þessu tímabili sinnti Skúli fjarþjálfuninni ásamt því að leysa af í Janus Heilsueflingu í Grindavík. Hann kláraði líka nýliðaprógramm í björgunarsveit og skellti sér í Fjallamennskunám FAS.

Í byrjun árs 2023 flutti Skúli svo til Grindavíkur þar sem hann fór í framkvæmdir á fokheldum bílskúr og var planið að breyta honum í sjúkra- og einkaþjálfunarstofu og var aðstaðan tilbúin í byrjun nóvember 2023. Skúli hafði einnig skrifað undir samning um sjúkraþjálfun fyrir vistmenn á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík, var kominn með leyfi sem heimasjúkraþjálfari og var virkilega spenntur að hefja störf í Grindavík. Þann 10. nóvember, í jarðhræringunum á Reykjanesskaga gjöreyðilagðist þó bæði heimili og þjálfunaraðstaða þannig að þessir draumar urðu að engu.

Það þýddi bara nýtt upphaf, ný tækifæri og framtíðin óskrifað blað. Fjölskyldan fann fljótt húsnæði á Seltjarnarnesi, börnin fengu pláss í skóla og leikskóla og Skúli byrjaði að plana næstu skref.

réttindi sem skúli hefur lokið

viltu vita meira?

    Nafn (Nauðsynlegt)

    Email (Nauðsynlegt)

    Efni

    Skilaboð