Ekki gera þessi mistök í jólaprófunum

Nú fer að ganga í garð erfiðasti tími ársins hjá fjölda framhalds,- og háskólanema; prófatímabilið! Tími svefnleysis, hreyfingarleysis, stresskasta, hamborgara, ofneyslu á koffíni og sykri. Já, það er ekkert grín að vera í skóla.

En hvað ef ég segði þér að þú gætir náð BETRI árangri í jólaprófunum með því að sofa meira, hreyfa þig meira og borða hollari mat.

Mér finnst alveg agalegt þegar metnaðarfullir nemendur gera þau mistök að hætta alveg að hreyfa sig þegar kemur að prófatörninni því það skal sko nýta hverja einustu mínútu dagsins til að læra. Hreyfing er tímasóun og þar sem maður er hættur að hreyfa sig getur maður alveg eins troðið í sig skyndibita og nammi og fengið skyndiorku með óteljandi kaffibollum og Red Bull. Svefninn fer í rugl og þú tekur jafnvel „all-nighter“ fyrir stórt próf. Skelfilegt!

Þú gætir náð betri árangri og haldið  andlegri og líkamlegri heilsu á sama tíma. Hugsaðu þér!

Verburgh og félagar fundu út í rannsókn sinni að stutt æfingalota leiðir til betri einbeitingar og heilastarfsemi, líklegast með því að auka blóðflæði til heilans. Taktu rösklegan 20 mínútna göngutúr fyrir prófið eða sem pásu í prófalestrinum og þú færð öflugt heilaboozt án slæmra aukaefna.

Önnur rannsókn skoðaði muninn á börnum sem gengu 20 mínútur á göngubretti og báru saman árangur þeirra við árangur barna sem sátu í 20 mínútur fyrir prófið. Þau sem tóku göngutúr stóðu sig marktækt betur í prófunum og eins og sjá má á myndinni hér til hægri jókst virkni á svæði heilans sem stjórnar einbeitingu. Þetta þarf ekki að vera mikið, 20-30 mínútna hreyfing daglega getur gert gæfumuninn.

Í rannsókn Coulson og félaga kom í ljós að á þeim dögum sem fólk í rannsókninni hreyfði sig var það glaðara, minna stressað og kom meiru í verk heldur en þá daga sem þau  hreyfðu sig ekki.

Það er vitað að hreyfing bætir skapið, minnkar þunglyndi og minnkar stress. Ef við erum í góðu skapi er mun auðveldara að einbeita sér og okkur gengur betur að læra heldur en ef við erum útúrstressuð og pirruð yfir einhverjum óþarfa fullyrðingum eða kenningum sem við erum að reyna að troða inní heilann á okkur. Við ákafa hreyfingu framleiðir líkaminn bæði endorfín og serótónín, hormón sem skapa þessa sælutilfinningu og minnka stress.

Svefninn er líka það fyrsta sem fær oft að fara hjá nemendum en það eru stór mistök að halda að þú græðir eitthvað á því að minnka svefninn til að geta lært meira.

Að vaka alla nóttina og reyna að troða eins miklum upplýsingum og þú getur inn í hausinn á þér er afar slæm hugmynd því minnið virkar verr en ella. Þegar við sofum er heilinn að vinna úr upplýsingum sem hann tók inn yfir daginn og að búa til nýjar taugabrautir og tengingar. Þegar þú ert ósofin/n er heilinn ekki jafn skilvirkur, þú hefur minni einbeitingu og hæfileikinn til að ná í upplýsingar er virkilega skertur. Þú græðir ekkert á því að sturta í þig fimm red bull og vaka alla nóttina. Sofðu vel og taktu góðan göngutúr fyrir prófið, þú ert ekki að fara að græða neitt nema stress á því að reyna að rifja upp allt efnið síðasta hálftímann fyrir próf.

9 ráð styrktarklúbbsins til að halda heilsunni og ná betri árangri í jólaprófunum

  • Sofðu 7-8 tíma allar nætur, sérstaklega nóttina fyrir lokapróf þar sem heilinn þarf að vinna úr öllum upplýsingunum
  • Ekki auka(eða minnka) koffínneysluna. Ef þú drekkur vanalega 3 kaffibolla á dag skaltu halda þig við það
  • Hreyfðu þig ALLA daga, þó það sé ekki nema hálftíma rösklegur göngutúr eða 10 mínútur af æfingum með eigin líkamsþyngd. Svitnaðu aðeins og auktu blóðflæði til heilans.
  • Haltu þig við sama holla mataræði og venjulega. Nóg af próteinum, kolvetni í formi ávaxta, grænmetis eða haframjöls til dæmis. Hollar fitur eins og fiskur, avókadó og ólífuolía. Nóg af vatni.
  • Hafðu með þér hnetublöndu með þurrkuðum ávöxtum ef nammipúkinn byrjar að kalla í prófalestrinum.
  • Labbaðu í lokaprófið ef þú hefur tök á því. Minnkar stress og eykur einbeitingu.
  • Stattu upp frá tölvunni og bókunum allavega einu sinni á klukkutíma. Teygðu aðeins á eða gerðu 10 hnébeygjur. Náðu í þetta app.
  • Prófaðu djúpöndun ef stressið er alveg að fara með þig. Anda djúpt inn um nefið og láta kviðinn lyftast, stút á munn og blása loftinu róóóólega út. Endurtaktu þangað til þú nærð að slaka aðeins á.
  • Ýttu á Like ef þú átt að vera að læra en ert í smá „Facebook pásu“. Það hjálpar. Ég lofa.