Taktu plankann yfir á næsta level með RKC planka

Það er nú ekki mörg ár síðan plankinn varð ein allra vinsælasta kviðæfingin og tók við af kviðkreppum og uppsetum. Það er ekkert nema jákvætt enda plankinn góð æfing. En hún er eiginlega of létt eins og flestir gera hana. Eftir ákveðinn tíma fer maður að sjá mjóbaksfettuna aukast, hálsinn fer í fokk og einstaklingurinn er meira og minna bara að hanga í liðunum án þess að mynda mikla spennu. Eða rassinn skýst upp og mjaðmabeygjuvöðvarnir taka yfir. Ef þú getur haldið uppi samræðum meðan þú ert að gera æfingu er hún einfaldlega of létt og þú ert ekki að einbeita þér að spenna vöðva sem eiga að vera að spennast. Því kynni ég til leiks RKC plankann, sem Pavel í Russian Kettlebell Club gerði vinsæla.

RKC plankinn er MUN meira krefjandi útgáfa af plankanum en þessi hefðbundna, en hún er ekki bara frábær kviðæfing heldur kennir hún manni að mynda spennu í öllum líkamanum sem færist yfir í aðrar æfingar og daglegt líf.

Þessi æfing bætir líkamsstöðuna með því að toga mjaðmargrind í aftursnúning, hún kveikir vel á rassvöðvunum og getur minnkað líkur á bakverkjum.

Hún krefst góðrar einbeitingar þar sem það er margt að hugsa um og bætir því tenginguna milli hugans og vöðvanna.

1.Byrjaðu á að leggjast á magann

2.Settu olnboga undir axlir(ef þú vilt gera hana ennþá erfiðari getur þú sett olnboga aðeins nær hvor öðrum og framar en axlir)

3.Kreistu rass, hugsaðu um að klemma tíkall milli rasskinnanna

4.Spenntu lærin, hugsaðu um að sparka frá þér af öllu afli

5.Kreystu kviðinn og togaðu þig upp í plankastöðuna

6.Hugsaðu um að toga olnboga í átt að tám án þess að hreyfa þá

7.Haltu áfram að kreista alltsaman

 

Það er fínt að byrja á 5-10 sekúndna haldi og hvíla sig nokkrar sekúndur. Endurtaka 4x og þá ertu búin/n með eitt sett. Taktu 2-3 sett. Markmiðið er ekki að bæta tímann neitt rosalega, heldur að reyna að auka spennuna. Bæta tenginguna við vöðvana og kreysta þá eins og þú eigir lífið að leysa.

Prófaðu þessa frábæru „core“ æfingu sem er svo miklu meira en bara einföld kviðæfing.

Deildu að vild með vinum og vandamönnum.