Að vera einkaþjálfari er ekki lögverndað starfsheiti. Það þýðir að hver sem er getur kallað sig einkaþjálfara og farið að taka við fólki í þjálfun. Því eru einkaþjálfarar á Íslandi eins misjafnir eins og þeir eru margir. Mér þykir mjög vænt um starfið mitt og reyni að gera mitt besta til að vinna góða vinnu og hjálpa stéttinni að veita eins góða þjónustu og mögulegt er.
Því er þessi grein skrifuð bæði fyrir almenning sem vilja finna sér góðan einkaþjálfara og einkaþjálfara sem vilja bæta sig og verða betri í sínu starfi.
Þessi listi er alls ekki tæmandi því það eru óteljandi kostir sem einkenna góðan einkaþjálfara. En þessi listi er góð byrjun
1. Góður einkaþjálfari skaðar ekki skjólstæðing sinn.
Góður einkaþjálfari lætur kúnnann ekki gera hættulegar æfingar eins og að gera hnébeygjur á æfingabolta með stöng á bakinu. Það er bara heimskulegt og býður hættunni heim. Góður einkaþjálfari kennir líka öryggisatriði eins og að setja klemmur á stangirnar og að hafa ekki eitthvað dót fyrir aftan sig í hnébeygjurekkanum.
2. Góður einkaþjálfari er alltaf að læra
Góður einkaþjálfari er stöðugt að bæta við sig þekkingu með því að lesa greinar og bækur, horfa á fyrirlestra og sækja námskeið. Hann þarf ekki endilega að vera að sökkva sér djúpt ofaní nýjustu rannsóknir en hann þarf að vera að lesa, pæla og bæta sífellt við sig þekkingu.
3. Góður einkaþjálfari þekkir sín takmörk
Einkaþjálfari er ekki sjúkraþjálfari og ekki næringarfræðingur(nema þeir einkaþjálfarar sem eru með þessa menntun á bakinu auðvitað). Hann þekkir sín takmörk og hikar ekki við að senda frá sér kúnna sem þarf á sjúkraþjálfun eða aðstoð næringarfræðings að halda.
4. Góður einkaþjálfari reynir ekki að höfða til allra
,,Reyndu að höfða til allra og þú höfðar ekki til neins“
Allt of oft þegar einkaþjálfarar auglýsa sig reyna þeir að taka við öllum: ungum, gömlum, byrjendum, lengra komnum, meiddum, íþróttamönnum, börnum og ég veit ekki hvað og hvað. Reyndu að vera góður í öllu og þú verður meðal eða lélegur þjálfari. Góður þjálfari veit að þegar hann einbeitir sér að einum hóp viðskiptavina getur hann einbeitt sér 100% að þeim hóp og orðið mjög fær á því sviði. Það er líka misskilningur að þú fáir fleiri viðskiptavini þegar þú reynir að lokka alla að. Ef þú ert þjálfari skaltu finna þér markhóp sem þú hefur gaman af að þjálfa og halda þig við þann hóp.
5. Góður einkaþjálfari er stundvís
Auðvitað getur það komið fyrir að einkaþjálfari geti komið of seint, en það á að gerast örsjaldan. Ef einkaþjálfarinn þinn er oft seint ber hann ekki virðingu fyrir þínum tíma og því skaltu finna þér nýjan þjálfara.
6. Góður einkaþjálfari er með plan
Ef þjálfarinn þinn gerir bara eitthvað með þér og er ekki með neitt plan skaltu finna nýjan strax. Það eru auðvitað undantekningar en þú átt að vita nokkurnveginn hvað þú ert að fara að gera áður en þú mætir á æfingu.
7. Góður einkaþjálfari skrifar niður eða lætur þig skrifa niður þyngdirnar þínar
Ef þjálfarinn þinn skrifar aldrei neitt niður veit hann ekki hvort þú sért að verða sterkari, fljótari, betri. Góður einkaþjálfari getur sýnt þér á blaði eða með myndböndum hversu mikið þú ert búin/n að bæta þig. Hann tekur reglulega ástandsskoðanir og styrktar/þolpróf.
8. Góður einkaþjálfari veit að hann þarf ekki að keyra þig í jörðina
Hver sem er getur keyrt fólk gjörsamlega niður í jörðina þangað til það þarf að æla. Það segir ekkert til um gæði þín sem þjálfari ef kúnnarnir eru alltaf algerlega búnir á því eftir æfingar.
9. Góður einkaþjálfari gerir ekki sín markmið að þínum
Góður einkaþjálfari hlustar á kúnnann og skrifar prógramm eftir markmiðum hvers og eins. Góður þjálfari setur ekki alla undir sama hatt og þó að þjálfarinn hafa mestan áhuga á kraftlyftingum/ólympískum/bodybuilding/Crossfit o.sv.frv. á hann ekki að ýta sínu áhugamáli yfir á alla sína kúnna. Nema auðvitað að þjálfarinn sérhæfi sig í sínu áhugamáli og fólkið komi til hans sérstaklega vegna þess.
10. Góður einkaþjálfari hefur góð tök á öllum æfingum
Góður einkaþjálfari hefur góð tök á öllum þeim æfingum sem hann kennir sínum kúnnum. Hann þarf ekki að vera sérfræðingur í öllum æfingum en ef þjálfari kann ekki að gera ólympískar lyftingar sem dæmi á hann ekki að vera að kenna ólympískar lyftingar.
11. Góður einkaþjálfari er ekki giftur einu tóli
Góður einkaþjálfari er með fullt af tólum í verkfærakassanum og notar þau eftir markmiðum og áhuga hvers og eins. Það er til ótal tól til að styrkja sig: Stangir og lóð, handlóð, bjöllur, TRX, trissur, tæki, teygjur, eigin líkamsþyngd og svo margt fleira. Góður einkaþjálfari veit hvenær hvert tól er viðeigandi og notar ekki bara eitt þeirra með öllum kúnnum. Nema auðvitað þjálfarinn sérhæfi sig í einhverju ákveðnu tóli.
12. Góður einkaþjálfari getur skalað æfingar
Góður einkaþjálfari getur breytt flestum æfingum og gert þær erfiðari eða léttari eftir getu hvers og eins. Hann getur líka alltaf breytt um æfingu án fyrirvara ef eitthvað er ekki að ganga upp.
13. Góður einkaþjálfari er með athyglina á kúnnanum
Góður einkaþjálfari er ekki í símanum eða á löngu spjalli á meðan hann þjálfar. Kúnninn borgar oft háar fjárhæðir fyrir þjálfunina og á rétt á 100% athygli.
14. Góður einkaþjálfari er jákvæður
Góður einkaþjálfari tekur á móti þér með bros á vör og kvartar ekki yfir sínum vandamálum. Góður einkaþjálfari segist aldrei vera þreyttur því hann hafi verið að þjálfa allan daginn og þú ert síðasti kúnninn. Þetta er fyrsti tíminn þinn þann daginn og þú vilt þjálfara sem tekur á móti þér á jákvæðan hátt.
15. Góður einkaþjálfari gerir kúnnann sjálfstæðan
Góður einkaþjálfari er líka kennari. Hann kennir kúnnanum sínum og gerir hann það öruggan í salnum að hann þarf ekki lengur á þjálfaranum að halda. Kúnninn blómstrar og þjálfarinn sem kom honum þangað lítur rosalega vel út.
16. Góður einkaþjálfari er hvetjandi
Góður einkaþjálfari hvetur kúnnnana sína áfram og fær þá til að finna sína innri hvatningu til að gera hreyfinguna að líffstíl en ekki bara mánaðarátak með einkaþjálfara.
17. Góður einkaþjálfari prógrammar allar þessar fjórar hreyfingar. Aukastig fyrir bóndagöngu!
Ýta – Toga -Hné yfirráðandi(Hnébeygja) – Mjaðma yfirráðandi(Réttstöðulyfta). Ef þjálfarinn þinn er ekki að láta þig gera einhverja útgáfu af þessum hreyfingum er hann ekki að gera þér neina greiða. Ef hann gerir þær allar og bætir svo við einhverskonar bóndagöngu er hann mjög líklega að gera góða hluti.
18. Góður einkaþjálfari leggur mikla áherslu á rétta tækni.
Hver sem er getur talið endurtekningar. Góður einkaþjálfari er sífellt að bæta tæknina hjá kúnnanum og leggur mikla áherslu á að æfingarnar séu gerðar rétt. Ef hann sér að kúnninn ræður ekki við æfingu er góður þjálfari fljótur að gera breytingar á æfingunni eða hreinlega finna betri æfingu sem hentar kúnnanum betur.
19. Góður einkaþjálfari hefur góða þekkingu
Góður einkaþjálfari hefur góða þekkingu á mannslíkamanum og hefur góð tök á anatómíu, hreyfifræði og lífeðlisfræði. Hann getur samt einfaldað hlutina og reynir ekki að flækja hlutina fyrir kúnnanum bara til að hljóma gáfaður.
20. Góður einkaþjálfari hjálpar kúnnanum að ná árangri
Þetta er ekki flókið. Kúnninn er að borga þjálfaranum til að hjálpa sér að ná árangri, hvað sem það nú þýðir fyrir kúnnann.
21. Góður einkaþjálfari hoppar ekki milli prógramma
Góður þjálfari umbreytir ekki þjálfunaraðferðum sínum þegar hann lærir eitthvað nýtt og skemmtilegt. Hann er alltaf með sömu grunn þjálfunarfræðina en tekur bita héðan og þaðan þegar hann lærir eitthvað nýtt og athugar hvernig það passar inn í hans þjálfunarfræði. Ef þjálfarinn þinn er alltaf að umturna prógramminu þínu ættir þú að leita eitthvað annað.
22. Góður einkaþjálfari gefur af sér
Góður einkaþjálfari skrifar greinar eða miðlar einhvernveginn fróðleik til almennings. Þannig byggir hann upp traust og hjálpar mögulega einhverjum sem kannski hefur ekki efni á þjálfun akkúrat núna. En þegar hann loksins ákveður að fá sér einkaþjálfara leitar hann til þess sem hann þekkir og treystir. Þannig lærir einkaþjálfarinn og græðir fleiri kúnna. Win-Win dæmi.
23. Góður einkaþjálfari gerir mistök
Góður einkaþjálfari gerir mistök. En hann lærir af þeim. Góður einkaþjálfari skiptir reglulega um skoðun með aukinni reynslu. Góður einkaþjálfari veit að hann veit eiginlega ekki neitt og er því alltaf að reyna að læra og verða betri. Það er fátt verra en einkaþjálfari sem heldur að hann viti allt sem hann þarf að vita núþegar.
24. Góður einkaþjálfari hefur ástæðu fyrir hlutunum
Góður þjálfari lætur þig gera allt af ástæðu. þú átt alltaf að geta spurt þjálfara „afhverju erum við að gera þessa æfingu?“ og hann getur alltaf gefið betra svar en „afþví bara“. Steini A Steina bætti þessum punkt við.
Eins og sjá má er margt sem einkennir góðan einkaþjálfara og vonandi getur þessi listi hjálpað einkaþjálfurum að bæta sig auk þess að hjálpa almenningi að finna góðan einkaþjálfara. Ef þú vilt bæta einhverju við þennan lista eða hefur einhverjar spurningar máttu senda mér línu á skuli@styrktarklubburinn.is
Endilega deildu þessu með vinum þínum ef þeir eru að leita sér að einkaþjálfara