Getur þú kælt af þér fituna?

Kuldi sem tól til að brenna fitu

Er það mögulegt að nota kulda til þess að auka fitubrennslu? Já, það hefur verið sýnt fram á það að kuldi er mjög gagnlegur þegar kemur að því að brenna fitu ásamt mörgum öðrum jákvæðum kostum sem ég mun greina frá hér á eftir. En byrjum á að svara titli greinarinnar. Lengi vel var talið að einungis ungabörn væru með svokallaða brúna fitu vegna þess að þau búa ekki yfir þeim eiginleika að geta hlýjað sér með því að skjálfa. Á seinni tímum hefur komið í ljós að við fullorðna fólkið HÖFUM þessa brúnu fitu og með því að nota kuldaþjálfun getum við AUKIÐ hana. Brúna fitan er kölluð brún fita vegna þess að ef hún er skoðuð í smjásjá sést að hún er með mikið meira af hvatberum en hefðbundin fita sem gefur henni brúnan lit. Við kulda virkjast UCP1 prótein sem lætur þessa hvatbera mynda orku og hita í brúnu fitunni með því að BRENNA hvítu fitunni sem enginn vill! Það er merkilegt að það er öfugt samband á milli brúnu fitunnar og fitu% almennt. Það þýðir að það hefur verið fundin tenging á milli þess að vera með meira af brúnni fitu og lægri fituprósentu. Kuldaþjálfun getur svo aukið þessa brúnu fitu og þar af leiðandi hjálpað þér að brenna fitu.
  • Ein rannsókn sýndi að við það að vera í 15-16 gráðum í 6 klst á dag 10 daga í röð jókst brúna fitan um 37%
  • Önnur lítil rannsókn sýndi að eftir klukkutíma í 20 gráðu vatni jók brennsluna um 93% og 350% í 14 gráðu heitu vatni
Það er eitthvað af brúnni fitu í kringum líffæri og svo í efra baki, öxlum, hálsi og bringu þannig að ef þú ætlar að nýta þér kuldaþjálfun til að brenna fitu þarftu helst að beina sturtunni á þessa staði eða fara alveg ofan í kalda pottinn með einungis höfuð(og hendur/tær ef þú vilt) upp úr. Þú getur samt ekki lesið þetta, hætt að hreyfa þig og farið að borða rusl og legið svo allan daginn í kalda pottinum. Þetta getur samt klárlega hjálpað en mataræðið, svefn og hreyfing kemur alltaf á undan þessu. Þetta er hinsvegar frábært tól og hefur áhrif á svo margt annað en fitubrennslu. Eins og til dæmis…

Kuldi sem tól til að bæta ónæmiskerfið

Sýnt hefur verið fram á að langtíma kuldaþjálfun 3x í viku í 6 vikur hækkaði magn eitilfruma og önnur rannsókn sýnir að þeir sem synda að vetri til hafa hærra magn hvítra blóðfrumna. Önnur rannsókn sýndi aukningu á T-eitilfrumum sem eru frumur sem drepa krabbameinsfrumur. Það er almennt talað um það hjá þeim sem stunda sjósund og aðra kuldaþjálfun að kvefpestir verði sjaldgæfari en ein rannsókn sýndi tengsl á köldu sundi og 40% færri sýkinga í öndunarfærum. Þannig að ef þú vilt styrkja ónæmiskerfið og forðast allar þessar kvefpestir yfir vetrartímann skaltu skella þér í sjósund, kalda pottinn eða ískalda sturtu!

Kuldi sem tól til að bæta heilastarfsemi

Ég veit að mér líður hrikalega vel eftir að hafa verið í kalda pottinum, fyllist af orku, einbeitingu og vellíðunartilfinningu. En það er það sem kallast „anecdotal evidence“, ekki hægt að heimfæra það yfir á aðra nema það sé búið að rannsaka málið með viðurkenndum vísindalegum aðferðum. Sem er raunin þó rannsóknir á þessum sviðum séu svolítið stutt komnar. Það er ekki hægt að deila um það að kuldaþjálfun stóreykur noradrenalín framleiðslu í blóðinu og heilanum en skortur á þessu hormóni hefur verið tengdur við einbeitingarskort, slæmt skap og almenna vanlíðan. Þegar noradrenalín er mjög lágt getur það valdið þunglyndi. Þannig að noradrenalín er gott stöff! 20 sekúndna dýfa í 4,4 gráðu heitt vatn hækkaði noradrenalín um 200-300%, sem er rosaleg hækkun á svona stuttum tíma! Það er ekki furða að manni líði vel eftir nokkrar mínútur í kalda pottinum þar sem samhliða þessari aukningu í noradrenalíni færðu einnig vænt dópamín skot, en það hjálpar til með vellíðan. Ekki furða að ég sé að verða svona háður þessu, en um síðustu helgi var ég við Úlfljótsvatn og gat eiginlega ekki hætt að hugsa um hvað mig langaði að skella mér ofaní! Svo má nefna rannsóknir sem lofa góðu varðandi tengsl við prótein sem nefnast „Heat Shock Protein“ við endurmyndun taugamóta í heilanum. Þetta hefur aðallega verið rannsakaðum í músum en þær rannsóknir lofa góðu og mögulega getur þetta prótein verndað heilann þegar kemur að Alzheimer’s og fleiri taugasjúkdómum. Kuldaþjálfun (og hiti) virkjar þetta heat shock protein. Þetta verður örugglega rannsakað frekar í mönnum á komandi árum.

Kuldi sem tól til að minnka bólgur og verki

Bólgur eru helsti óvinur mannsins og eru margir sjúkdómar sem við erum að deyja úr ásamt öldrun tilkomin vegna bólguástands í líkamanum. Þannig að við viljum gera allt sem við getum til að halda bólgum í líkamanum í skefjum. Þarna ætti aðal áherslan að vera á mataræði, svefn og hreyfingu en kuldaþjálfun getur alveg klárlega hjálpað! Noradrenalínið sem ég talaði um áðan er bólgueyðandi en ég ætla ekki að fara mikið út í það hvernig það virkar. „Cryotherapy“ hefur töluvert verið rannsakað þegar kemur að gigt, en þar fer maður í klefa þar sem loftið í kringum mann er kælt gríðarlega niður(-110 gráður) og þú stendur þar í 2-3 mínútur. Ég veit ekki til þess að svona klefar séu til á Íslandi en að fara í ísbað í lengri tíma ætti að hafa sömu áhrif þó svo að ég viti ekki til þess að þessar tvær aðferðir hafi verið bornar saman. Allavega hefur verið sýnt fram á að þessi aðferð minnkar gigtarverki, líklega með því að minnka bólgur með auknu flæði af noradrenalíni.

En það hljóta að vera einhver neikvæð áhrif?

Ekki mikil sem ég hef fundið, en ég er algjörlega opinn fyrir því að þetta geti haft einhver neikvæð áhrif ef einhver veit um rannsóknir og þá uppfæri ég greinina. EN… Það virðist skipta miklu máli HVENÆR eða réttara sagt hvenær þú ættir EKKI að stunda þína kuldaþjálfun. Ein rannsókn sýndi að heilbrigðir karlmenn sem fóru í kalt bað í 10 mínútur strax eftir styrktarþjálfun fengu einungis 1/3 af aukningu á vöðvamassa miðað við þá sem ekki fóru í ísbað. Þetta er mjög mikilvæg rannsókn því mér þykir líklegt að mjög margir sem stunda ísböð geri það beint eftir lyftingaræfingu ef þeir eru að æfa í líkamsræktarstöð sem er tengd við sundlaug. Þetta varð til þess að ég hætti að fara í kalda pottinn eftir lyftingarnar, því við viljum fá ákveðið bólgusvar til að auka styrk og vöðvamassa eftir lyftingarnar. Hversu lengi borgar sig að bíða? Ég veit það ekki, en ef styrkur og vöðvamassi er eitthvað sem þú vilt bæta ættir þú að bíða allavega klukkutíma með að fara í ísbað. Hefur þetta sömu áhrif eftir þolþjálfun? Nei, það virðist hafa jákvæð áhrif að fara í ísbað fljótlega eftir þolþjálfun þannig að það er betri tími til að kæla sig niður heldur en eftir lyftingarnar.

Hvernig á ég að byrja?

Það er engin ein aðferð besta aðferðin þar sem rannsóknir eru komnar frekar stutt og ómögulegt að segja til um hvaða aðferð virkar best. Ég veit bara að það borgar sig að byrja rólega og vinna sig upp með tímanum. Þetta er ákveðið stress á líkamann og við viljum hafa þetta það mikið stress að líkaminn aðlagist stressinu en ekki það mikið stress að þú farir að skaða þig. Þessi grein er einungis til að fræða en það er algjörlega á þína ábyrgð hvað þú gerir við þessar upplýsingar. Ég mæli sterklega með því að leita til læknis og fá grænt ljós áður en þú byrjar kuldaþjálfun, sérstaklega ef þú ert með einhverskonar hjarta- og æðasjúkdóm eða aukna áhættu á að fá slíka sjúkdóma.
  • Þú getur byrjað að prófa heima með því að taka venjulegu sturtuna þína og lækka smám saman hitann og standa undir kaldri sturtu eins lengi og þú þolir.
  • Reyndu að halda rólegri öndun í gegnum nefið allan tímann
  • Ef þú ætlar að prófa kalda pottinn í sundlauginni getur verið gott að byrja með brjóstkassa upp úr fyrstu skiptin og fara svo smám saman dýpra.
  • Það getur verið gott að hafa tær og fingur uppúr til að geta verið aðeins lengur.
  • Farðu strax upp úr ef þú ferð að skjálfa.
  • Ég labba alltaf einn góðan hring í kringum sundlaugina ÁÐUR en ég fer í heita pottinn, mig grunar að það sé of mikið stress á líkamann að fara beint í heita pottinn eftir 10+ mínútur í kalda pottinum, en hef í rauninni ekkert á bakvið þær hugmyndir.
Hefur þú prófað kuldaþjálfun? Lærðir þú eitthvað af þessari grein? Endilega hentu inn commenti og deildu greininni með vinum og vandamönnum því við höfum flest gott af því að stunda smá kuldaþjálfun!

Skildu eftir svar