Að nærast í núvitund


Núvitund á rætur sínar að rekja um það bil 2.500 ár aftur í tímann, til gamallar hefðar innan Búddisma. Núvitund er sú meðvitund sem kviknar með því að beina athyglinni af ásetningi að líðandi augnabliki, án þess að dæma það sem gerist innra með okkur. Jon Kabat Zinn, upphafsmaður núvitundar í vestrænu samfélagi, leggur áherslu á að þetta sé leið til þess að vera vakandi og tengjast við lífið. Helsta leiðin til þess að öðlast færni í núvitund er að iðka hugleiðslu eða stunda núvitundaræfingar. Þá er athyglinni beint til dæmis að önduninni, hvað er að gerast í huganum og líkamanum og að fylgjast með upplifuninni. Að nærast í núvitund felur í sér að yfirfæra þessar aðferðir yfir á matarvenjur.

Ýmsir þættir í nútímasamfélagi geta haft áhrif á matarvenjur okkar. Aðgengi að mat er auðvelt og hinir ýmsu miðlar sjá okkur fyrir stöðugu áreiti tengdu mat. Það að finna lykt af eða að sjá eitthvað matarkyns kveikir oftar en ekki löngun til þess að borða. Margir stilla matarvenjur sínar eftir klukkunni og því getur það eitt að líta á klukkuna kveikt löngun í mat. Fleiri þættir geta haft áhrif á matarvenjur og eru tilfinningar einn af þeim. Matur er gjarnan tengdur við jákvæðar tilfinningar svo þegar neikvæðar tilfinningar á borð við sorg, leiða eða einmanaleika gera vart við sig á fólk það til að leita í mat til að láta sér líða betur.

Að borða er okkur lífsnauðsynlegt. Líkaminn okkar býr yfir kerfi sem lætur okkur vita hvers hann þarfnast. Nemar í maganum gefa merki um þegar líkaminn þarfnast orku. Nemar frá maganum, þörmum, lifur og heila gefa svo merki þegar líkaminn hefur fengið næga orku. Tíminn sem ferlið tekur frá því að næring er komin inn í kerfið þar til við upplifum seddu tekur  að meðaltali 20 mínútur. Það gerir það að verkum að séum við að borða mjög hratt eða með hugann við eitthvað annað á meðan við borðum getum við misst af þessum merkjum eða brugðist við þeim of seint. Það eru ekki eingöngu þættir innra með okkur sem stjórna inntöku á mat, sjón og lyktarskyn gegna einnig mikilvægu hlutverki. Við lærum að meta hversu mikinn mat við þurfum eftir útliti hans. Stærð matardisksins hefur áhrif á hvernig við skynjum skammtastærðir. Á litlum disk virðist skammturinn stærri en þegar notaður er stór diskur, auk þess sem minni diskur gerir það að verkum að við borðum hægar. Að borða þegar við erum svöng og hætta að borða þegar við erum södd getur því verið flóknara en það hljómar.

Að nærast í núvitund felur í sér að beina athyglinni af ásetningi að öllu því sem gerist í huganum og líkamanum á meðan við borðum, án þess að dæma. Að tileinka sér þetta þarf alls ekki að vera flókið, í raun er þetta eins einfalt og hægt er. Að nærast í núvitund felur ekki í sér reglur um hvað má og má ekki borða. Engar reglur eru um hversu mikið má borða né hvenær  má borða. Það eina sem þarf að gera er að taka eftir og hlusta á líkamann. Þannig þurfum við að lágmarka áreiti í umhverfinu, eins og síma eða sjónvarp. Okkar eigin tilfinningar geta einnig truflað þetta ferli, þess vegna er mikilvægt að bjóða allar tilfinningar velkomnar og skoða hvaða áhrif þær hafa á matarvenjur okkar. Hvernig upplifum við matinn; bragð, útlit, áferð og lykt. Hvernig hljóð gefur hann frá sér þegar við tyggjum? Er líkaminn að verða saddur? Er máltíðin að gefa okkur þá næringu sem við þurfum?

Áhrifin af því að nærast í núvitund eru margskonar. Niðurstöður rannsókna benda til þess að núvitund geti meðal annars hjálpað til við þyngdarstjórnun hjá einstaklingum í ofþyngd (Heimild 1), stuðlað að heilbrigðari matarvenjum (Heimild 2) og aukið sjálfsaga. Einnig hafa rannsóknir sýnt að með því að tileikna sér núvitund má draga úr einkennum kvíða, þunglyndis og lotuofáts (Heimild 1).

Miðað við niðurstöður rannsókna getur núvitund í matarvenjum haft heilsusamlegan ávinning í för með sér. Í ljósi þess hve einfaldar aðferðirnar eru ættu flestir að geta tileinkað sér þær án mikillar fyrirhafnar.

Auðveld ráð til að tileinka sér núvitund í matarvenjum

  • Borðaðu hægar
  • Tyggðu hvern bita oftar
  • Leggðu hnífapörin frá þér á milli þess sem þú færð þér bita
  • Taktu þér pásur á meðan á máltíðinni stendur
  • Notaðu minni matardisk og hnífapör
  • Útilokaðu áreiti t.d. síma, sjónvarp eða útvarp
  • Ekki borða á ferðinni – gefðu þér tíma til að njóta þess að borða
  • Hlustaðu á hungur- og seddutilfinninguna í líkamanum
  • Hugsaðu um hvaða tilfinningar þú finnur fyrir meðan þú borðar
  • Einbeittu þér að því hvaða upplýsingar skynfærin gefa þér meðan á máltíðinni stendur

Vilt þú læra allt sem þú þarft um mataræði, öðlast heilbrigðara samband við mat og kannski missa nokkur kíló? ProCoach 12 mánaða næringarþjálfunin fer MUN dýpra ofan í það að nærast í núvitund. Skráðu þig á póstlistann til að fá upplýsingar næst þegar skráning hefst í þetta 12 mánaða prógramm sem getur breytt lífi þínu.

Heimildir

https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0965229910001044

https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1499404611002648

Skildu eftir svar