Gerðu þetta ef þú æfir á morgnana

Ef þú ert ein af þeim ofurmanneskjum sem rífur sig upp eldsnemma á morgnanna þegar restin af þjóðinni slefar ennþá á koddann sinn ertu hetja. Algjör hetja!

Mörgum þykir frábært að byrja daginn á því að hreyfa sig og klára það fyrir daginn. Aðrir hafa engan annan tíma vegna vinnu og fjölskyldu.

Sama hver ástæðan er fyrir því að þú æfir snemma á morgnana eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga, því það er ekki besti kosturinn að fara að æfa um leið og maður vaknar. En það er mun betra en að sleppa því ef þú hefur engan annan tíma.

Fyrsta atriðið sem þarf að nefna er meiðslahætta. Brjóskið í hryggnum á okkur safnar í sig vatni þegar við sofum, því erum við aðeins hærri á morgnana en á kvöldin. Þetta gerir hrygginn aðeins stífari, álagið eykst og líkurnar á bakmeiðslum hækka aðeins á meðan þessi vökvi er að fara úr brjóskinu. Því er ekki skynsamlegt að fara í þungar lyftingar um leið og maður vaknar. Best er að vakna amk klukkutíma áður en maður byrjar æfinginuna til að leyfa vökvanum aðeins að minnka og líkamanum að liðkast. Þetta þýðir að ef æfingin byrjar klukkan 6 þarftu að vakna klukkan 5 og fara á fætur. Til að ná betur upp líkamshitanum fyrir átök getur verið gott að skella sér í heita sturtu um leið og þú vaknar eða eftir að þú ert búin að borða. Nú ertu búin að gera líkamann kláran fyrir átökin, en að lykta vel er bara bónus.

Ef þú ferð að lyfta á morgnana er æskilegt að fá amínósýrur út í blóðið til að hindra vöðvaniðurbrot á æfingunni. Þetta getur þú gert með því að borða til dæmis egg um leið og þú vaknar og þú ættir að vera í góðum málum. Próteinhristingur er líka góður sem og BCAA(amínósýrur). Sumir geta átt góða æfingu á fastandi maga en aðrir þurfa að vera búnir að borða máltíð 1-2 tímum fyrir æfingu. Þetta er bara eitthvað sem þú þarft að prófa þig áfram með. Allir ættu samt að fá amínósýrur, sama hvort það sem með því að borða eða hrista það út í vatn. Ekki fara að lyfta algjörlega fastandi, þá gæti vöðvaniðurbrot verið meira en vöðvauppbygging og það viljum við ekki.

Þá ertu búin að næra þig og taka heita sturtu þannig að þú ert klár í að bruna í ræktina. Þú ert ekki að fara að henda 100kg á bakið á þér og taka hnébeygjur. Góð upphitun er alltaf mikilvæg en SÉRSTAKLEGA ef þú æfir snemma á morgnana og ert ekki búin að vera vakandi lengi. Þetta með hrygginn manstu. Þannig að þú ætlar að taka góðar 10 mínútur til að hita upp, og ég vona að prógrammið þitt innihaldi einhverskonar upphitunarrútínu. Það er ekki nóg að labba bara á hlaupabrettinu í 10 mínútur. Þú þarft að liðka líkamann og liðina og gera æfingar sem líkja eftir þeim æfingum sem þú ert að fara að gera með þyngdir. Ef prógrammið þitt er ekki með góða upphitun ætti að vera lítið mál að finna upphitunarrútínur á netinu.

Ef þú æfir snemma á morgnana segir það sig svolítið sjálft að þú þarft að fara fyrr að sofa. Ekki sofa minna en 7 tíma á nóttu, 6 tímar er það allra allra minnsta sem þú kemst upp með, og það bara sem sjaldnast. Ef þú ert að skerða svefninn meira en það til að fara á æfingu held ég hreinlega að þú græðir meira á því að sofa og reyna svo bara að hreyfa þig sem mest yfir daginn með því að taka stigann, stutta göngutúra og slíkt. Svefninn er bara ÞAÐ mikilvægur að hann er það síðasta sem þú ættir að fórna.

Ef þú hefur engan annan tíma en snemma á morgnana til að æfa mæli ég sterklega með því að þú fylgir þessum ráðum. Þau eru einföld og hjálpa þér að bæta vöðvamassann og minnka líkur á meiðslum. Endilega deildu þessari grein ef þú þekkir fólk sem vaknar á ókristilegum tíma til að fara í ræktina!

Skildu eftir svar