Kassahopp eru einhver allra besta leið til að auka sprengi- og stökkkraft en vandamálið er að æfingin er sjaldan gerð á þann hátt að hún sé að virka sem sprengikraftsæfing. Hvað er svosem flókið við þetta? Þú stillir upp kassa og hoppar upp á hann. Rólegur, þetta er aðeins flóknara en það. Það er kannski ekki helsta vandamálið að hoppa upp á hann, það er hvernig þú gerir það og sérstaklega hvernig þú lendir. Að ég tali nú ekki um þegar þú ert farin/n að nota kassahopp sem þolæfingu, en þá er voðinn vís.
Áður en við förum lengra skulum við skoða myndband af ágætu kassahoppi.
Takið sérstaklega eftir því hvernig ég rétti næstum úr mjöðmum þegar ég hoppa. Til að fá gott power í hoppið þarf að gefa allan kraft í að kýla mjaðmirnar fram þannig að maður rétti næstum alveg úr mjöðmum. Ég hoppa alltaf aðeins upp og fram þess vegna næ ég ekki alveg fullri réttu en ef ég myndi hoppa aðeins beinna upp myndi ég rétta örlítið betur úr mjöðminni. En segjum að þetta sé bara nokkuð gott. Takið líka eftir lendingunni. Þar skýst rassinn út og tekur þá mesta höggið og álagið af hnjánum. Ef ég leyfi rassinum ekki að skjótast út við lendinguna fer allt álagið á hnén, sem er mikið no-no.
Sjáið svo muninn á næstu tveimur myndböndum.
Í því fyrra kemur lítill kraftur úr mjöðmunum í hoppinu og því er ég í raun bara að lyfta fótunum upp mjög hratt til að geta komist upp á kassann. Þetta snýst ekki bara um að koma sér frá A til B. Sjáið lendinguna þegar ég geri þetta; mikil beygja á mjóbakinu sem setur álag á neðstu hryggjarliðina og eykur líkur á brjósklosi. Skemmtilegt. Takið líka eftir því að ég hoppa niður af kassanum í hvert skipti. Double trouble og auka álag á hnén. Ímyndaðu þér fertugan kall sem hefur ekki hreyft sig í 20 ár og er með 10 aukakíló að gera þetta kannski 50 sinnum. Ég myndi ekki vilja vera hnén á honum.
Sjáðu svo hnén á mér í seinna myndbandinu, hvernig þau leita inn á við í hoppi og lendingu. Þetta er mun algengara hjá stelpum útaf ástæðum sem ég ætla ekki að fara í hér en þessi mekanísmi(hnén leita inn á við) er ein helsta orsök krossbandaslita. Lærðu að lenda áður en þú ferð að hoppa, og ef þú hoppar og lendir með hnén svona inn á við þarftu að fá aðstoð við að lagfæra þetta. Eða halda áfram að hoppa svona og bíða eftir krossbandaslitum. Þitt val.
Einu sinni vissi ég ekki betur og var oft að æfa mig að hoppa eins hátt og ég gat, einu sinni feilaði ég á hoppi og skrapaði á mér sköflungana. Það var vont. En maður lærir, og nú er ég að reyna að hjálpa öðrum að læra af mínum mistökum. Hérna er myndband af hoppi sem er ekki beint erfitt fyrir mig en sjáið samt hvað er að gerast.
Ég er ekkert að hoppa neitt hærra! Ég er bara að nýta góðan mjaðmaliðleika(ég teygji næstum aldrei, trúiru því?) og lyfti hnjánum bara hærra og lendi þannig með mikla beygju á mjóbaki. Ég er ekkert að græða meira á æfingunni og áhættan eykst. Ef kassahopp væri grein á ólympíuleikunum(djöfull myndi ég horfa á það) myndi ég græða eitthvað á þessu og jafnvel taka áhættuna á meiðslum. En þangað til er bara betra að hoppa upp á minni kassa, einbeita sér að því að rétta vel úr mjöðmunum og lenda rétt. Þú getur eytt góðum hálftíma í að skoða „box jump fail“ myndbönd á youtube, ekki verða einn af þeim.
Að nota kassahopp sem þolæfingu er að mínu mati ákaflega heimskulegt, sérstaklega fyrir Jón og Gunnu úti í bæ. Allt í góðu ef þú ert keppnismanneskja í Crossfit þar sem þetta er oft partur af keppninni(af hverju veit ég ekki) og þú þarft að geta gert þetta. En hugsaðu allavega um að reyna að gera þetta vel á æfingum, hugsaðu um lendinguna og reyndu að dempa höggið þegar þú hoppar niður af kassanum aftur. Ef þú gerir þetta illa á æfingum gerir þú þetta líka illa í keppni.
Fyrir hina sem eru ekki keppnismanneskjur í Crossfit
1. Byrjaðu á að sippa og venjast þannig hoppum
2. Lærðu að lenda áður en þú byrjar að hoppa
3. Byrjaðu á litlum hoppum
4. Stígðu niður af kassanum í stað þess að hoppa niður
5. Notaðu æfinguna sem POWER æfingu í upphafi æfingar þegar þú ert fersk/ur, MAX 5 reps í hverju setti
6. Hækkaðu smám saman kassann þegar þú finnur að þú getur rétt vel úr mjöðmunum og lendingin er góð.
7. Njóttu þess að hafa betri sprengikraft og verkjalaus hné, þau munu þakka þér fyrir seinna.
Lærðiru eitthvað af þessari grein? Endilega deildu og lækaðu því hvert „deil“ og „læk“ hjálpar að dreifa orðinu og hjálpa fleirum…